Íslenski boltinn

Rúnar: Hver einasti leikur mjög mikilvægur

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Sigurganga Rúnars með liðið heldur áfram.
Sigurganga Rúnars með liðið heldur áfram.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var að vonum ánægður með sigurinn í kvöld en KR-ingar höfðu betur í Keflavík gegn heimamönnum og sigurganga Rúnars með liðið heldur áfram. „Hver einasti leikur er mjög mikilvægur og við erum virkilega ánægðir með að ná landa sigri hér í Keflavík þar sem þessi heimavöllur hefur alltaf reynst okkur erfiður. Keflavíkurliðið er mjög vel mannað og mjög sterkir leikmenn í þessu liði þannig við erum mjög sáttir með sigurinn," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir mikilvægan 1-0 sigur hans manna gegn Keflvíkingum í kvöld. „Ég var stressaður fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleiknum en við duttum mjög neðarlega og það var ekki það sem við ætluðum að gera. Við vörðumst þó vel og hefðum getað skorað tvö, þrjú mörk undir lokin," sagði Rúnar sem segir sjálfstraust sinna manna vaxa með hverjum leik. „Það er vonandi að sjálfstaust leikmanna aukist með hverjum leik sem líður og mikilvægt að allir hafi trú á því sem að við erum að gera. Þessi leikur gefur okkur lítið í næsta leik þar sem við verðum að byrja upp á nýtt þar en við mætum einu af bestu liðum landsins um næstu helgi FH," sagði Rúnar ánægður í leikslok.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×