Innlent

Ögmundur: AGS afdráttarlaust á móti almennum lausnum

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson alþingismaður VG segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lagst afdráttarlaust gegn almennum lausnum á skuldavanda heimilanna. Þetta kom fram í morgunþættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun þar sem Ögmundur ræddi meðal annars um sjóðinn ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Ögmundur segir AGS leggja ofuráherslu á sértækar aðgerðir. „Við vorum að herða á skuldaaðlögunarlögunum sem voru áður komin til framkvæmda og voru betrumbætt núna," segir hann. „En þau taka ekki á málum þeirra sem geta borgað, en bara rétt svo." Ögmundur segir að gagnvart slíkum almennum niðurfærslum hafi sjóðurinn lagst gegn með afdráttarlausum hætti.

Að sögn Ögmundar er sjóðurinn hér á landi fyrst og fremst til þess að passa upp á hagsmuni fjármálakerfisins. Ögmundur segir ennfremur að AGS fari að nokkru leyti með efnahagsstjórn landsins. „Hann yfirfer öll frumvörp sem frá ríkisstjórninni koma og lúta að fjárhag og úrlausn efnahagsvandans, það er bara staðreynd sem við horfumst í augu við." Þó er það ekki svo að sögn þingmannsins að sjóðurinn stýri hér efnahagsmálum í öllu tilliti, það geri ríkisstjórnin.

Aðpurður hvort sjóðurinn hafi neitunarvald segir Ögmundur: „Hann hefur það í þeim skilningi að það sem við höfum viljað fá á hans vegum, sem er aðgangur að gjaldeyrisforða, hefur verið háð því að við förum að tilsettum reglum og virðum hans sjónarmið. Í þeim skilningi hefur hann það og það er þessvegna sem Íslendingar hafa ekki hent honum á dyr, enn sem komið er."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×