Enski boltinn

Gérard Houllier búinn að gera þriggja ára samning við Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gérard Houllier vann bikarþrennu með Liverpool 2001, enska bikarinn, enska deildarbikarinn og UEFA-bikarinn.
Gérard Houllier vann bikarþrennu með Liverpool 2001, enska bikarinn, enska deildarbikarinn og UEFA-bikarinn. Mynd/AFP
Gérard Houllier hefur samþykkt þriggja ára samning um að gerast knattspyrnstjóri Aston Villa samkvæmt frétt hjá Guardian en enskir miðlar höfðu fyrir nokkru birt fréttir um að allt stefndi í það að þessi fyrrum stjóri Liverpool snéri aftur í ensku úrvalsdeildina.

Kevin MacDonald stýrði liði Aston Villa eftir að Martin O'Neill hætti skyndilega rétt fyrir mót en eftir slakt gengi í deild og Evrópukeppni var það ljóst að hann yrði ekki ráðinn í starfið.

Houllier hefur verið tæknilegur ráðgjafi hjá franska knattspyrnusambandinu síðan að hætti sem stjóri Lyon. Phil Thompson, aðstoðarmaður hans hjá Liverpool, mun ekki verða aðstoðarmaður Houllier en það á eftir að koma í ljóst hver hreppir það starf.

Hinn 63 ára gamli Gérard Houllier verður aðeins annar útlendingurinn í sögunni til þess að setjast í stjórastólinn hjá Aston Villa en hinn er Tékkinn Jozef Venglos sem var stjóri liðsins frá 1990 til 1991.

Fyrsti leikur Houllier með Aston Villa verður á mánudagskvöldið þegar liðið heimsækir Stoke City á Britannia Stadium en það gæti einnig orðið fyrsti leikur Eiðs Smára Guðjohnsen með Stoke.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×