Íslenski boltinn

Haraldur: Virðist vera vandamál fyrir okkur að koma boltanum yfir línuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haraldur Freyr Guðmundsson.
Haraldur Freyr Guðmundsson.
Haraldur Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkurliðsins var svekktur eftir 1-1 jafntefli á móti Grindavík í kvöld. Keflvíkingar fengu fullt af færum en tókst ekki að landa sigurmarkinu þrátt fyrir mikla pressu í seinni hálfleiknum.

„Eins og þessi leikur var fyrir mér þá áttum við þennan leik frá A til Ö. Þeir komust reyndar í 1-0 en við svöruðum strax til baka og áttum síðan að klára þennan leik," sagði Haraldur.

„Við fáum aragrúa af færum, skot fyrir utan og föst leikatriði en þetta var bara enn og aftur svona hjá okkur. Þeir eiga einhver fjögur stórhættuleg færi en þau koma af því að við erum að pressa þá niður í kok. Við þurftum bara að þrykkja inn þessu eina marki til að opna þá aðeins meira en það kom ekki," sagði Haraldur.

„Það eina sem við getum gert núna er að sætta okkur við þetta og einbeita okkur að næsta leik," sagði Haraldur en Keflvíkingar þurfa að fara finna sér markaskorara til þess að fara klára leikina sína.

„Ég held að við séum ekkert stressaðir upp við markið. Það virðist samt vera vandamál fyrir okkur að koma boltanum yfir línuna og það er eitthvað að plaga okkur upp við markið," sagði Haraldur og bætti við:

„Við spiluðum vel í þessum leik, börðumst og hlupum mikið. Við erum ofan á í öllum leiknum og við gátum ekki gert mikið annað en að skora þetta mark sem vantaði," sagði Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×