Innlent

Ófriður á stjórnarheimilinu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar

Ríkisstjórnin gæti misst stuðning þingmeirihlutans ef kaupin á Magma Energy ganga í gegn, en þingmönnum sem neita að styðja ríkisstjórnina ef svo fer fjölgar. Stjórnmálafræðingur telur ekki ólíklegt að að boðað verði til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins.

Það er þungt hljóð í þingmannahópi Vinstri grænna vegna Magma málsins. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður flokksins, segist ekki munu styðja ríkisstjórnina ef kaup Magma Energy á HS orku verði ekki gerð ógild, Atli Gíslason þingmaður tekur í sama streng og Þuríður Backman, þingmaður, segist munu eiga erfitt með það. Ríkisstjórnin gæti því notið stuðnings minnihluta þingmanna ef kaupin ganga í gegn.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segist halda að þingmenn Vinstri grænir séu nú að setja Samfylkingunni stólinn fyrir dyrnar og að vel megi vera að málið geti klofið ríkisstjórnina ef ágreiningnum verði leyft að magnast upp og menn nái ekki að vinda ofan af umræðunni áður en hún fari úr böndunum. Hins vegar sé erfitt að sjá hvað ríkisstjórnin geti gert til að grípa inn í Magma málið. Hún segir þó að ríkisstjórninni hafi hingað til tekist að lifa þrátt fyrir að hafa óljósan þingmeirihluta á köflum.

„En þessi ríkisstjórn hefur líka oft verið með ólíkindum," segir hún.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×