Íslenski boltinn

Ólafur Örn: Hefðu þeir nýtt sín færi þá hefðum við tapað þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindavíkur, lék sinn fyrsta leik með liðinu íkvöld þegar liðið gerði 1-1 jafntefli í Keflavík. Ólafur Örn kom inn á og lék síðustu 14 mínútur leiksins.

Ólafur viðurkenndi eftir leikinn að Grindavík hefði sloppið vel frá þessum leik enda Keflvíkingar í stórsókn stærsta hluta seinni hálfleiks.

„Í seinni hálfleik liggur mikið á okkur. Við vissum að það yrði legið á okkur en mér fannst þeir skapa sér óþarflega mikið af opnum færum. Við náðum ekki að loka nægjanlega á þá en við vorum alltaf að ógna þeim fram á við. Það vantaði oft herslumuninn að við kæmust í gegnm og svo komust við tvisvar i gegn í lokin og hefðum getað stolið þessu," sagði Ólafur.

„Hefðu þeir nýtt sín færi þá hefðum við tapað þessum leik og við verðum því bara að þakka fyrir þetta eina stig og taka það með okkur því það er betra en ekki neitt," sagði Ólafur Örn Bjarnason, spilandi þjálfari Grindavíkur eftir leikinn.

Ólafur Örn kom inn í vörnin síðustu fjórtán mínútur leiksins og fór Orri Freyr Hjaltalín þá inn á miðjuna.

„Ég kom inn af því að Matthías (Örn Friðriksson) var kominn með spjald og ég vildi fá aðeins meiri hraða inn á miðjuna. Þetta breytti svo sem engu en það var gaman að koma inn á," sagði Ólafur Örn sem lék sinn fyrsta leik á Íslandi síðan 2003.

„Það er alltaf jákvætt að tapa ekki leikjunum en eitt stig gefur samt ekki mikið. Það þurfa að fara að koma sigrar og við þurfum að fara að nota heimavöllinn okkar betur," sagði Ólafur Örn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×