Íslenski boltinn

Halldór: Við erum ekkert hættir að fagna

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Ég er gríðarlega sáttur, þetta var virkilega erfiður vinnusigur þar sem við hlupum úr okkur lungun. Við vissum að ef við myndum ná sigri í dag myndum við skilja við fallbaráttuna og því er þetta virkilega sætur sigur. Við slökum ekkert á en það er gott að vita af bilinu þarna á milli," sagði Halldór Orri Björnsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir 3-2 sigur á Selfossi í Garðabæ.

„Það var svekkjandi að fá á sig mark svona snemma. Það var mjög góð stemming í klefanum fyrir leik og við lögðum ekki upp með þetta. Við hins vegar náum fljótlega að jafna og komast svo yfir og fara með eins marks forskot í hálfleik, það sýndi góðan karakter."

Stjörnumenn voru óheppnir að taka ekki stærra forskot inn í hálfleik og klúðruðu góðum færum í fyrri hálfleik og náðu því aldrei að hrista Selfyssinga alveg af sér.

„Við fengum fullt af færum og vorum virkilega miklir klaufar að nýta ekki fleiri færi, við gerðum þennan leik óþarflega spennandi og gerðum okkur erfitt fyrir."

Stjörnumenn urðu heimsfrægir á stuttum tíma þegar skemmtilegt fagn þeirra í leik gegn Fylki rataði á netið og fór víða um heim. Þeir frumfluttu eitt nýtt fagn þegar Halldór Orri skoraði þriðja markið.

„Maður er alltaf að hugsa upp á einhverju. Við erum ekkert hættir að fagna núna. Heilinn er að starfa á fullu að finna upp á einhverju nýju og svo er þetta tekið einu sinni í klefa fyrir leiki" sagði Halldór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×