Enski boltinn

Rooney með þrennu í sigri United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney fagnar einu marka sinna í dag.
Wayne Rooney fagnar einu marka sinna í dag. Nordic Photos / Getty Images

Wayne Rooney skoraði þrennu er Manchester United vann 4-1 sigur á Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni. Alls er sex leikjum lokið í dag.

Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn í liði Portsmouth sem er því enn á botni deildarinnar með sjö stig. Liðið er nú öðrum sjö stigum frá öruggu sæti.

Rooney skoraði tvö markanna úr vítaspyrnum. Fyrst eftir að brotið var á honum sjálfum en Kevin-Prince Boateng jafnaði svo metin fyrir Portsmouth úr annarri vítaspyrnu stuttu síðar.

Ryan Giggs lagði svo upp annað mark Rooney og United snemma í síðari hálfleik. Rooney skoraði svo þriðja markið úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Giggs.

Giggs sjálfur skoraði svo fjórða mark United beint úr aukaspyrnu en þetta var hans 100. mark í ensku úrvalsdeildinni. Hann verður 36 ára gamall á morgun.

Alex Ferguson tók út leikbann í dag og fylgdist því með leiknum úr áhorfendastúkunni.

Þetta var fyrsti leikur Portsmouth undir stjórn Avram Grant en liðið lék mjög vel í fyrri hálfleik. United tók hins vegar öll völd í seinni hálfleik og vann öruggan sigur.

Fulham og Bolton gerðu jafntefli, 1-1. Heimamenn voru sterkari aðilinn framan af í leiknum en Ivan Klasnic kom Bolton engu að síður yfir á 35. mínútu leiksins með skoti úr vítateignum. Damien Duff jafnaði svo metin á 75. mínútu.

Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton og kom mikið við sögu í leiknum. Hann bjargaði sínum mönnum í tvígang í fyrri hálfleik og átti svo möguleika á að tryggja Bolton sigurinn í þeim síðari er hann skallaði framhjá úr góðu færi.

Manchester City og Hull gerðu jafntefli, 1-1. Þetta var sjöunda jafntefli City í röð í deildinni. Shaun Wright-Phillips kom City yfir í lok fyrri hálfleiks en Jimmy Bullard jafnaði metin með vítaspyrnu á 82. mínútu fyrir Hull.

Robinho var í byrjunarliði City í fyrsta sinn síðan í ágúst en hann spilaði í alls 75 mínútur í dag.

West Ham vann Burnley, 5-3. Jack Collison, Junior Stanislas, Guillermo France, Carlton Cole og Luis Jimenez skoruðu mörk West Ham en þeir tveir síðastnefndu úr vítaspyrnum. Steven Fletcher skoraði tvívegis fyrir Bolton og Chris Eagels eitt.

Jóhannes Karl Guðjónsson var allan leikinn á bekknum hjá Burnley.

Wigan vann Sunderland, 1-0. Hugo Rodallega skoraði eina mark leiksins úr þröngu færi á 76. mínútu. Þetta var einkar mikilvægur sigur fyrir Wigan sem tapaði 9-1 fyrir Tottenham um síðustu helgi.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×