Enski boltinn

Mackay ánægður með Heiðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helguson í leik með íslenska landsliðinu.
Heiðar Helguson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Vilhelm

Malky Mackay, knattspyrnustjóri Watford, var ánægður með frammistöðu Heiðars Helgusonar sem skoraði tvö mörk fyrir félagið í 3-3 jafntefli við Leicester.

Þetta var fyrsti leikur Heiðars með félaginu síðan hann var seldur þaðan fyrir fjórum árum síðan. Heiðar er nú á mála hjá QPR en var nýverið lánaður til Watford.

„Hann sýndi strax á fyrstu mínútu að hann ætlaði að láta til sín taka. Hann var mjög duglegur og samstarf hans við Danny Graham var frábært," sagði Mackay í samtali við enska fjölmiðla.

Sjálfur sagði Graham að hann vonaðist til að Heiðar yrði áfram í herbúðum Watford eftir að lánssamningurinn rennur út um áramótin.

„Þetta var eins og í sögu hjá Heiðari. Hann hefur áður staðið sig vel í búningi Watford og hann var vel studdur af áhorfendum. Hann svaraði með því að skora tvö mörk. Það er frábært að hann skuli vera kominn aftur til félagsins,“ sagði Graham.

Heiðar kom inn á sem varamaður í hálfleik en spilaði aðeins í 36 mínútur vegna meiðsla. Það er enn óvitað hversu alvarleg meiðslin eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×