Enski boltinn

Getur hugsanlega ekki skokkað aftur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Dean Ashton viðurkennir að það sé erfitt að kyngja því að þurfa að leggja skóna á hilluna. Hann segir meiðsli sín vera svo slæm að hætta sé á því að hann geti aldrei hlaupið aftur.

Ashton lagði skóna á hilluna í gær aðeins 26 ára að aldri. Hann náði ekki að jafna sig af ökklameiðslum sem hann varð fyrir á landsliðsæfingu með Englandi árið 2006.

„Þetta er fáranleg staða. Ég vildi bara geta labbað eðlilega aftur en ég get það ekki einu sinni. Heilsan er augljóslega mikilvægari en fótboltinn. Mér var tjáð að ef ég reyndi að spila aftur fótbolta væri hætta á því að ég gæti ekki gengið aftur. Ég fer í mína fimmtu aðgerð á þriðjudaginn," sagði Ashton.

„Það er ólíklegt að ég geti skokkað aftur. Ökklinn er afar viðkvæmur. Það er langt í að ég komist yfir þessu vonbrigði. Auðvitað er maður bitur og spyr að því af hverju ég hafi þurft að lenda í þessu. Þetta er sorglega hliðin á fótboltanum," sagði framherjinn óheppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×