Enski boltinn

Van der Sar enn óviss um hvenær hann hættir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Edwin van der Sar.
Edwin van der Sar. Nordic Photos / Getty Images

Edwin van der Sar, markvörður Manchester United, segist enn vera óviss um hvenær hann muni hætta í knattspyrnu.

Hann hefur enn ekkert geta spilað með United á leiktíðinni þar sem hann er með brotinn þumalputta.

„Í desember árið 2006 ákváðum við að framlengja samninginn minn um eitt ár þegar hálft var eftir af þeim gamla. Síðan þá höfum við haft sama háttinn á," sagði van der Sar í samtali við enska fjölmiðla.

„Við munum því sjá til hvernig málin standa í september. Mér líður vel en ég veit að líkurnar á að núverandi tímabil sé það síðast aukast eftir því sem ég eldist," sagði hann en van der Sar er 38 ára gamall.

Alex Ferguson hefur áður sagt að hann eigi ekki von á því að van der Sar verði áfram aðalmarkvörður United eftir að þessu tímabili lýkur.

Þá er enn ekki útilokað að van der Sar muni spila með hollenska landsliðinu á HM í Suður-Afríku í sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×