Íslenski boltinn

Þetta gerðist í lokaumferð Pepsi-deildar karla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur Takefusa varð markakóngur Pepsi-deildar karla með sextán mörk.
Björgólfur Takefusa varð markakóngur Pepsi-deildar karla með sextán mörk. Mynd/Stefán
Lokaumferðin í Pepsi-deild karla fór fram í dag og var nóg um að vera þó svo að það hafi verið lítil spenna um sæti í deildinni.

Eins og flestir vita tryggðu FH-ingar sér titilinn um síðustu helgi. Þá voru Þróttur og Fjölnir þegar fallin og KR og Fylkir búin að tryggja sér sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð. FH tekur þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Vísir tekur hér saman helstu atburði dagsins á einum stað:

Fram - Þróttur 0-1

Sam Malsom kom Þrótti upp úr neðsta sæti deildarinnar með því að skora eina markið í annars bragðdaufum leik gegn Fram. Framarar náðu engu að síður að tryggja sér fjórða sæti deildarinnar þar sem liðið er með betra markahlutfall en Breiðblik. Bæði lið fengu 34 stig í sumar.

Eftir leikinn sagði Þorsteinn Halldórsson í samtali við Vísi að hann myndi ekki halda áfram sem þjálfari liðsins.

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, hvíldi þá leikmenn sem voru á gulu spjaldi fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Breiðabliki um næstu helgi.

Umfjöllun: Þróttur kvaddi með sigri í arfadöprum leik

Þorsteinn hættur með Þróttara

Valur - KR 2-5

Björgólfur Takefusa tryggði sér gullskóinn í Pepsi-deild karla með því að skora öll fimm mörk sinna manna í KR gegn Valsmönnum. Björgólfur vantaði þrjú mörk til að jafna Atla Viðar Björnsson, leikmann FH, sem skoraði ekki í 1-1 jafntefli FH og Fylkis.

Þó vakti það einnig athygli þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson, varamaður Valsmanna, lét heldur til sín taka á þriggja mínútna kafla. Fyrstu mínútuna fékk hann áminningu, þá næstu skoraði hann annað mark Vals í leiknum og á þeirri þriðju náði hann sér í annað gult spjald og þar með rautt.

Þar með lauk tímabili sem Valsmenn vilja sjálfsagt gleyma sem fyrst. Liðinu tókst að vinna einn leik í síðustu ellefu leikjum sínum í deildinni eða síðan að liðið vann einmitt KR vestur í bæ, 4-3. Það var fyrsti deildarleikur liðsins undir stjórn Atla Eðvaldssonar.

KR-ingar hafa hins vegar verið á fljúgandi siglingu og unnu sex síðustu leiki sína og níu af síðustu tíu - eða síðan liðið tapaði fyrir Val í áðurnefndum leik liðanna.

Umfjöllun: Björgólfur tryggði sér gullskóinn með fimmu á móti Val

Björgólfur: Einn eftirminnilegasti dagurinn á ævinni

Helgi Sig: Allra erfiðasta tímabilið á ferlinum

Keflavík - ÍBV 6-1

Keflvíkingar tókst að vísu ekki að vinna leik á útivelli í allt sumar en þeir sýndu í dag að þeir eru illviðráðanlegir á heimavelli. ÍBV fékk að kenna á því. Engu liði tókst að vinna fleiri heimaleiki en Keflavík í sumar en bæði Keflavík og FH unnu átta af ellefu heimaleikjum sínum.

Keflvíkingar geta einnig huggað sig við það að ekkert lið fékk færri mörk á sig á heimavelli í sumar en þau voru alls tíu talsins. FH-ingar fengu fjórtán á sig á heimavelli í sumar.

Keflavík náði þrátt fyrir allt sjötta sæti deildarinnar og var ekki nema einu stigi á eftir Fram og Breiðablik. ÍBV varð í tíunda sæti og eru Eyjamenn sjálfsagt því fegnir að halda sæti sínu í deildinni, fyrst og fremst.

Óvissa er um framhald Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara Keflavíkur, en hann sagði að framtíð hans myndi ráðast í næstu viku.

Umfjöllun: Keflavík rúllaði yfir ÍBV

Heimir Hallgrímsson: Meira jákvætt en neikvætt í sumar

Kristján Guðmundsson: Get enn mótiverað liðið

Fylkir - FH 1-1

Íslandsmeistararnir léku lokaleik sinn í Árbænum, rétt eins og í fyrra, en voru nú búnir að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Eins og í öðrum leikjum setti veðrið sterkan svip á leikinn sem var þó merkilega góður, þrátt fyrir allt.

Ólafur Ingi Stígsson lék sinn síðasta leik með Fylkismönnum í dag og var heiðraður fyrir framlag sitt til félagsins.

Umfjöllun: Jafntefli í veðurofsa

Ólafur Ingi: Skrýtin tilfinning

Ólafur: Hefðum átt að vinna

Heimir: Nokkuð sáttur

Breiðablik - Grindavík 3-0

Breiðablik virðist vera í góðum málum fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Fram um næstu helgi og vann öruggan 3-0 sigur á Grindavík í dag. Liðið vann alls sex af síðustu átta leikjum sínum í deildinni og tapaði aðeins einum - fyrir FH í Kaplakrika.

Grindavík hefur hins vegar ekki unnið leik síðan liðið vann frækinn sigur á FH í Kaplakrika þann 22. ágúst síðastliðinn. Sumarsins hjá Grindavík verður þó fyrst og fremst minnst fyrir þá staðreynd að fresta þurfti mörgum leikjum liðsins þar sem flestir leikmenn liðsins lögðust í rúmið með svínaflensu um mitt sumar.

Umfjöllun: Öruggur sigur hjá Blikum í hávaðaroki

Kostic: Ég vil halda áfram hjá Grindavík

Ólafur: Menn bognuðu í sumar en brotnuðu aldrei

Stjarnan - Fjölnir 1-1

Gunnar Már Guðmundsson lék sinn síðasta leik með Fjölni í dag og hélt upp á það með því að skora eina mark liðsins í 1-1 jafntefli gegn Stjörnunni. Gunnar Már er líklega á leið í Fjölni. Þá tilkynnti Fjölnismaðurinn Jónas Grani Garðarsson eftir leik að hann væri sennilega hættur.

Hið sókndjarfa lið Stjörnunnar tókst ekki að innbyrða sigur í síðustu níu leikjum sínum í deildinni. Síðast vann Stjarnan 5-1 sigur á Þrótti á heimavelli en sá leikur var háður þann 23. júlí síðastliðinn.

Stjarnan skoraði alls 45 mörk í sumar og aðeins FH og KR skoruðu fleiri mörk í sumar. Í níu síðustu leikjum sínum skoraði Stjarnan alls tólf mörk en fékk á sig 24.

Umfjöllun: Jafnt í Garðabæ

Jónas Grani hættur

Bjarni Jó: Flott fyrri umferð bjargaði okkur

Gunnar Már: Þetta var kveðjuleikurinn minn

Lokastaðan í Pepsi-deildinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×