Enski boltinn

Manchester City vann Chelsea og jafnaði toppbaráttuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez fagnar sigurmarki sínu á móti Chelsea í kvöld.
Carlos Tevez fagnar sigurmarki sínu á móti Chelsea í kvöld. Mynd/AFP

Nýju framherjarnir Emmanuel Adebayor og Carlos Tevez tryggðu Manchester City 2-1 sigur á Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en það var markvörðurinn Shay Given sem sá til þess að City gerði ekki áttunda jafnteflið í röð þegar hann varði víti frá Frank Lampard sjö mínútum fyrir leikslok.

Chelsea-liðið var búið að vinna fimm síðustu deildarleiki sína með markatölunni 17-0 og hefði með sigri getað náð fimm stiga forskoti á Manchester United. Tapið þýðir að nú munar bara tveimur stigum á efstu liðunum.

Manchester City er nú í 6. sæti deildarinnar, einu stigi á undan Liverpool sem er nú komið niður í 7.sæti eftir að hafa misst bæði City og Aston Villa upp fyrir sig í dag.

Chelsea menn fengu hjálp við það að komast yfir á 8. mínútu þegar boltinn fór af Emmanuel Adebayor og í markið eftir að Shay Given hafði varið tvö skot Chelsea í röð í sannkallaðri stórsókn Lundúnaliðsins.

Given varði þá skot Nicola Anelka í Adebayor sem stóð fyrir framan marklínuna og snéri baki í hann. Adebayor gat ekki gert neitt til að koma í veg fyrir að boltinn færi í hans eigið mark.

Emmanuel Adebayor tókst að bæta fyrir sjálfsmarkið þegar hann jafnaði leikinn 29 mínútum síðar. Shaun Wright-Phillips átti þá skot eftir hornspyrnu sem fór af varnarmanni til Adebayor sem skoraði í annarri tilraun úr markteignum.

Carlos Tevez kom síðan Manchester City í 2-1 með marki beint úr aukaspyrnu á 56. mínútu. Ricardo Carvalho felldi þá Shaun Wright-Phillips rétt fyrir utan teiginn og Tevez skoraði með hnitmiðuðu skoti. Þetta reyndist vera sigurmark Manchester City í leiknum.

Frank Lampard fékk kjörið tækifæri til að jafna leikinn fyrir Chelsea á 83. mínútu þegar Didier Drogba fiskaði víti á varamanninn Nedum Onuoha. Shay Given varði hinsvegar vítið á stórglæsilegan hátt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×