Innlent

Stefnt getur í neyðarástand á gjörgæslu

Ef almenningur trassar að láta bólusetja sig, faraldurinn breiðist verulega út og innlögnum fjölgar mikið gæti það þýtt að senda þyrfti fólk af spítalanum og stöðva einhverja starfsemi, segir starfandi sóttvarnalæknir. fréttablaðið/gva
Ef almenningur trassar að láta bólusetja sig, faraldurinn breiðist verulega út og innlögnum fjölgar mikið gæti það þýtt að senda þyrfti fólk af spítalanum og stöðva einhverja starfsemi, segir starfandi sóttvarnalæknir. fréttablaðið/gva
Ef ekki tekst að hindra útbreiðslu svínaflensunnar með bólusetningu getur það raskað starfsemi Landspítalans. Þar eru til þrjár hjarta- og lungnavélar, en allmargar öndunarvélar að auki. Þetta segir Þórólfur Guðnason starfandi sóttvarnalæknir.

„Það þurfa ekki mörg tilfelli að bætast við, til að mynda á gjörgæslu spítalans, sem þurfa öndunarvélaraðstoð eða slíkt, til þess að skapa algjört neyðarástand. Það má ekki gleyma því að þar inn koma fleiri, sem lent hafa í slysum eða veikindum og þurfa bráðaaðstoð. Skilaboðin hingað frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu segja að við megum búast við því að fá marga sem þurfa á hjarta- og lungnavélum að halda. Það er þeirra reynsla.“

Þórólfur undirstrikar að það sé því mjög mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn sem annast veikt fólk láti bólusetja sig. „Til þess eru þrjár ástæður. Í fyrsta lagi þarf að vernda sjúklinga gegn því að starfsmenn beri smit á milli. Í öðru lagi er bólusetning nauðsynleg til þess að starfsmennirnir veikist ekki sjálfir og geti sinnt störfum sínum sem eru svo mikilvæg. Í þriðja lagi þarf fólk að vernda fjölskyldur sínar með því að bera ekki smit frá spítalanum heim til sín.“

Þórólfur minnir á að svínaflensan sé viðbót við það sem hvílir á spítalanum frá degi til dags.

„Eins og fram hefur komið í fréttum hefur sjúkrahúskerfið ekki mikið aukapláss hvað varðar tæki, húsnæði og starfsmenn til að takast á við mikil vandamál aukalega. Ef almenningur trassar að láta bólusetja sig, faraldurinn breiðist verulega út og innlögnum fjölgar mikið gæti það þýtt að senda þyrfti fólk af spítalanum og stöðva einhverja starfsemi. Þetta gæti valdið gríðarlegri röskun, meðal annars fyrir aðra sjúklinga.“

Þórólfur segir svínaflensuna breiðast hratt út, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Tölur dagsins sýni að tilfellum fjölgi ört.

jss@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×