Innlent

Catalina hefur tólf vændiskonur á sínum snærum

Catalina Ncoco segist hafa fjölda kvenna á sínum snærum.
Catalina Ncoco segist hafa fjölda kvenna á sínum snærum.
Catalina Ncoco, konan sem haldið hefur úti vændishúsum í Reykjavík undanfarin misseri, segist hafa tólf vændiskonur á sínum snærum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Í viðtali við Vikuna segist hún fara reglulega til Brasilíu til að finna konur til að stunda vændi hér á landi.

Í viðtalinu við Vikuna segir Ncoco að á hennar snærum séu tólf vændiskonur að störfum á höfuðborgarsvæðinu. Stúlkurnar stundi vændið í húsnæði á hennar vegum og greiði henni leigu. Ncoco þvertekur hins vegar fyrir að hagnast sjálf á vændinu en það er ólöglegt hér á landi. Að hennar sögn nota karlmenn meðal annars síðuna einkamál.is til að komast í kynni við hana og skjólstæðinga hennar.

Í viðtalinu segir Ncoco einnig að hún hafi farið sjálf til Brasilíu að finna konur til að stunda vændi hér á landi. Hún fullyrðir hins vegar að allar þær konur sem hingað hafi komið hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja. Þær séu hér til þess að safna sér pening.

Unnusti Ncoco situr nú í fangelsi í Amsterdam en hann var handtekinn með mikið magn af fíkniefnum í fórum sínum sem grunur leikur á að hann hafi ætlað að smygla til landsins.

Ncoco var sjálf handtekinn í fyrir skömmu og hneppt í gæsluvarðhald. Bæði vegna fíkniefnamáls unnusta hennar og vegna gruns um að hún hafi stundað mansal og ólöglega vændisstarfsemi hér á landi. Rannsókn á þeim málum er enn í fullum gangi hjá lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×