Innlent

Gagnrýnir laun Evu Joly

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson gagnrýndi laun Joly á þingi í dag. Mynd/ Kristján Kristjánsson.
Kristján Þór Júlíusson gagnrýndi laun Joly á þingi í dag. Mynd/ Kristján Kristjánsson.

Kristján Þór Júlíusson segir að með samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við Evu Joly hafi ríkið tekið nýja launastefnu. Hún fái greiddar 325 þúsund krónur á dag.

„Þetta eru ákveðin skilaboð til þeirra þrettán þúsund námsmanna sem nú standa frammi fyrir því að þurfa að finna vinnu," sagði Kristján Þór Júlíusson við utandagskrárumræður á Alþingi í dag. Kynntur var samstarfssamningur ríkisstjórnarinnar við Evu Joly um síðustu helgi. Hún fær 1300 þúsund króna á mánuði, fyrir aðstoð sína við sérstakan saksóknara sem rannsakar bankahrunið, en verður við störf á Íslandi fjóra daga í mánuði.

Það var Birkir J. Jónsson þingmaður Framsóknarflokksins sem hóf utandagskrárumræðu um uppbyggingu atvinnulífs og stöðu ríkissjóðs. Hann gerði atvinnuleysið að umtalsefni og sagði nauðsynlegt að skapa ný störf. Þá lýsti hann jafnframt áhyggjum sínum af stöðu námsmanna í sumar vegna atvinnuleysisins.

Kristján Þór sagði að engar upplýsingar lægju fyrir um það með hvaða hætti eigi að taka á málum að öðru leyti en því að það eigi að blanda á saman niðurskurði og skattahækkunum.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði að meginatriðið framundan væri að skapa 30 þúsund störf á næstu árum ef koma ætti í veg fyrir að fólk yfirgæfi landið. Þá sagði Lúðvík það ljóst að sjávarútvegur og landbúnaður myndu ekki skapa þessi nýju störf og að þessi störf yrðu ekki sköpuð án lántöku. Þá sagði Lúðvík það mikilvægt að erlendir kröfuhafar bankanna gætu eignast þá banka sem þeir mögulega geta eignast og átti þar einkum við um Glitni og Kaupþing.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×