Innlent

Uppgræðsla gæti skapað vinnu fyrir allt að þúsund manns

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands.
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands.

Skógræktarfélag Íslands hefur að eigin frumkvæði ráðist í það verkefni að skapa störf fyrir allt að 1000 manns í tengslum við uppgræðslu á grænum svæðum skógræktarfélaga landsins. 350 störf hafa þegar skapast og bundnar eru vonir við að sveitarfélögin í landinu haldi áfram að ráða fólk í þessi verkefni á næstu misserum.

Í tilkynningu frá Skógræktarfélagi Íslands segir að verkefnið sé unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun, ríkissjóð og sveitarfélögin. Tilgangurinn með þessu átaksverkefni er að skapa sumarstörf fyrir atvinnulaust fólk sem er tilbúið til að eyða sumrinu við fjölbreytt og skemmtileg störf sem tengjast skógrækt, gróðursetningu, stígagerð og uppbyggingu á grænum útivistarsvæðum.

18 sveitarfélög staðfesta þáttöku

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, segir að snemma á þessu ári hafi stjórn félagsins ákveðið að leggja sitt af mörkum við að mæta síauknu atvinnuleysi í þjóðfélaginu. „Skógræktarfélag Íslands hefur mótað stefnu til næstu þriggja ára sem miðar að því að ráðast í mannaflsfrek verkefni á sviði skóga og útivistar. Markmiðið er að ráðast í framkvæmdir við uppbyggingu á aðstöðu til útivistar og þar með auðvelda fólki aðgang að óspilltri náttúrunni hvort sem það er til heilsuræktar eða einfaldlega til að njóta samvista með fjölskyldunni í fallegu og heilnæmu umhverfi."

Að sögn Magnúsar hafa 18 sveitarfélög nú þegar staðfest þátttöku sína í verkefninu og felur það í sér um 350 störf yfir sumar og haustmánuðina. Segist hann vona að sveitarfélögin haldi áfram að ráða fólk í þessi verkefni því enn sé þörf á fólki til starfa. Á höfuðborgarsvæðinu eru þegar hafnar framkvæmdir í kringum Græna stíginn en í því verkefni felst að undirbúa lagningu á 3 metra breiðum stíg í útjaðri höfuðborgarsvæðisins sem mun liggja frá Kaldárseli í Hafnarfirði og þræða áhugaverðar náttúruperlur og útivistarsvæði í skjóli vaxandi skógarteiga alveg yfir í Esjuhlíðar, alls um 50 km samfellda leið.

Græni stígurinn stórbætir aðstöðu til útivistar

Stígurinn mun stórbæta aðstöðu fólks til útivistar hvort sem það eru gönguferðir, hjólreiðar, hlaup eða línuskautar. Þegar hefur verið samþykkt af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að setja stíginn í skipulagsferli innan hvers sveitarfélags til nánari útfærslu. „Til að Græni stígurinn verði að veruleika þarf mikið og gott samstarf á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og skógræktarfélaganna. Allir eru sammála um að stígurinn muni stórbæta aðstöðu höfuðborgarbúa til útivistar svo nú þarf bara að setja kraft í verkefnið með því að klára umhverfisskipulag, hefjast handa og fylgja því eftir allt til loka," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×