Enski boltinn

Chelsea, Liverpool og United munu berjast um Villa

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Villa.
David Villa. Nordic photos/APF

Breskir fjölmiðlar sjá fyrir sér spennandi kapphlaup um framherjann eftirsótta David Villa hjá Valencia þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar og telja að Chelsea, Liverpool og Manchester United muni tjalda öllu til þess að fá leikmanninn í sínar raðir.

Chelsea er sagt binda vonir við að áfrýjun félagsins út af félagaskiptabanni alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA muni fá farsælan endi fyrir jól og þá geti félagið sett sig í stellingar til þess að bjóða í Villa.

Chelsea veitir ekki af því að styrkja leikmannahóp sinn í janúar þar sem lykilmennirnir Didier Drogba, Michael Essien, John Obi Mikel og Salomon Kalou verði allir frá í fimm vikur til þess að taka þátt í Afríkukeppninni.

Knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson hjá Manchester United eyddi ekki nema smáum hluta af peningunum sem komu út úr sölunni á Cristiano Ronaldo í sumar og er sagður hafa mikinn áhuga á að fá Villa og liðsfélaga hans David Silva.

Þá er Liverpool að leitast við að fá meira fjármagn inn í félagið frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og ef það gengur eftir þá er mjög líklegt að knattspyrnustjórinn Rafa Benitez fái grænt ljós á að taka þátt í kapphlaupinu um Villa.

Landsliðsfélagi Villa hjá spænska landsliðinu, Fernando Torres, er sem kunnugt er hjá Liverpool og það gæti verið góður sölupunktur fyrir Liverpool til þess að sannfæra Villa um að koma til félagsins.

Bæði Villa og Valencia hafa gefið sterkar vísbendingar um að hann gæti yfirgefið félagið í janúar en Valencia er stórskuldugt og Villa rak umboðsmann sinn á dögunum fyrir að hafa ekki komið sér frá félaginu í sumar. Staða mála hefur hins vegar ekki truflað Villa mikið innan vallar þar sem hann hefur skorað sjö mörk í átta leikjum með Valencia til þessa í spænsku úrvalsdeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×