„Ég er ekki inn í fjármálum flokksins," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins varðandi þrjátíu milljóna króna styrk sem FL Group veitti Sjálfstæðisflokknumi lok desember 2006.
Þá var Guðlaugur Þór formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur en FL Group í félagi við Glitni og verkfræðistofuna VKG-Hönnun, stofnuðu Geysi Green Energy í byrjun árs 2007, sem ætlað var að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu víða um heim.
GGE varð síðan mikill örlagavaldur þegar þeir urðu hluti af REI-málinu umdeilda sem felldi að lokum borgarstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Guðlaugur segist ekki hafa vitað af styrknum þegar hann var veittur flokknum, hann hafi legið á spítala með brunasár á sama tíma, „líkt og alþjóð veit," bætir Guðlaugur við.
Aðspurður nákvæmlega hvenær hann vissi af styrknum svarar Guðlaugur: „Ég man ekki hvort það hafi verið í gær eða nokkrum dögum áður."
Síðan bætti Guðlaugur við að hann væri ekki með puttana í bókhaldi flokksins, þingmönnum hafi hingað til verið hlíft við því.