Innlent

Óvænt vitneskja í máli Bretanna

Jóhannes Rúnar Jóhannsson
Jóhannes Rúnar Jóhannsson

Mál skilanefndar Kaupþings gegn breska fjármálaráðuneytinu var flutt munnlega fyrir breskum áfrýjunardómstól hinn 1. júlí.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, í skilanefnd Kaupþings, var í dómsal, en skilanefndin fer fram á að ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins hinn 8. október, um að flytja Edge-innlánin frá Kaupthing Singer & Friedlander til ING Direct, án bóta, verði endurskoðuð.

Jóhannes segir málflutninginn 1. júlí hafa verið hefðbundinn.

„Menn færðu rök hvor fyrir sinni hlið og svo var málið tekið til dóms, eins og gerist á Íslandi,“ segir hann. Skilanefndin telur ákvörðunina ólöglega og flutti rökstuðning sinn fyrir því.

Spurður um mótrök Breta í málinu, segist Jóhannes telja að ekki sé rétt að gera það opinbert fyrr en að dómi kveðnum.

„En auðvitað eru hlutir þarna sem maður hafði ekki hugmynd um. [Bretarnir] byggja á því að atburðarásin fram til 8. október hafi verið með þeim hætti að þetta hafi verið réttlætanleg aðgerð,“ segir Jóhannes.

Sjónarmið Bretanna komi fram í málsskjölunum: „En ég veit svo sem ekkert hvað stjórnendur bankans vissu á þeim tíma. Þetta gerist allt áður en skilanefndin tekur við.“

Hann telur að fjölmiðlar og aðrir muni hafa áhuga á að kynna sér þessa atburðarás þegar dómur fellur.

Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið áætlar að skila niðurstöðum sínum nú í nóvember. Jóhannes segir að sér hafi verið tjáð að bresku dómararnir kunni að skila af sér jafnvel í október eða nóvember. Hann vonast að minnsta kosti til að þeir geri það fyrir árslok.

Spurður hvort málsskjölin kunni að geta haft áhrif á niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, segir Jóhannes það hugsanlegt.

Hafi skilanefndin betur fyrir áfrýjunardómstólnum gæti það orðið grundvöllur fyrir því að hún höfði skaðabótamál gegn breska ríkinu, því Edge/ING-ákvörðunin var undanfari þess að Kaupthing Singer & Friedlander fór í greiðslustöðvun.

klemens@fettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×