Innlent

Björgólfur Thor: Hugsar daglega um Icesave klúðrið

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Björgólfur Thor Bjórgólfsson
Björgólfur Thor Bjórgólfsson
Rithöfundurinn Illugi Jökulsson birtir í dag bréf sem hann segir að sé frá Björgólfi Thor Björgólfssyni á heimasíðu sinni. Upphaf bréfaskriftanna voru þau að Illugi sendi Björgólfi opið bréf þar sem hann spurði hvort Björgólfur hyggðist leitast við að borga þá upphæð sem afgangs verður vegna Icesave skuldarinnar eftir að eignir Landsbankans hafa verið seldar.

Björgólfur skrifar hreinskilið bréf til baka frá skrifstofu sinni í Bretlandi.

Þar segist hann aldrei hafa setið í bankaráði Landsbankans og hafi líkt og aðrir hluthafar fyrirtækisins treyst stjórnendum þess fyrir starfseminni og hlutafé sínu. Engu að síður líði ekki sá dagur sem hann hugsi ekki um þetta Icesave klúður.

„En til að svaraspurningu þinni á þann einfalda hátt sem þú óskar get ég aðeins sagt: Já, ég vil af einlægni gera það sem ég get til þess að Icesave skuldir falli ekki á íslenskan almenning," segir jafnframt í bréfi Björgólfs.

Á öðrum stað kemur fram að hann vilji hjálpa Íslandi að rétta úr kútnum fjárhagslega og það besta sem hann hafi upp á að bjóða er möguleikinn á að fá erlenda fjárfesta til að taka þátt í uppbyggingu á íslensku atvinnulífi. Að því vinni hann um þessar mundir.

Björgólfur aftekur að hafa farið á eyðslufyllerí erlendis fyrir íslenskt lánsfé eða hagnað af sölu fyrirtækja á Íslandi. Hann segir helstu lánadrottna sína erlenda og nær allan hagnað sinn síðustu árin hafa orðið til við kaup og sölu eigna í útlöndum.

Hann lýkur bréfinu á þessum orðum: „Að þessu sögðu vona ég að nú fari menn að einbeita sér að uppbyggingu Íslands með markvissum hætti og vonast ég til að geta lagt hendur á þann plóg með öðrum viljugum sem líkt og ég trúa því að lausnir á vanda Íslendinga í dag felast í verðmætasköpun í framtíð."

Bréf Illuga má í heild sinni sjá hér.

Svar Björgólfs má í heild sinni sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×