Enski boltinn

Zola hefur miklar áhyggjur af Ashton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dean Ashton, til vinstri, fagnar marki í leik með West Ham í mars í fyrra.
Dean Ashton, til vinstri, fagnar marki í leik með West Ham í mars í fyrra. Nordic Photos / Getty Images
Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham, hefur ekki hugmynd um hvenær Dean Ashton geti spilað með liðinu á ný. Hann hefur verið meiddur í eitt ár.

Ashton ökklabrotnaði árið 2006 og hefur aldrei náð sér almennilega á strik eftir það. Ökklinn er honum enn til vandræða í dag.

Ashton hefur verið að æfa með einkaþjálfara sínum og því ekkert æft með leikmönnum West Ham.

„Vandamálið er mun alvarlegra en nokkur grunaði," sagði Zola. „Nú er liðið eitt ár og ég hef auðvitað miklar áhyggjur. Ég get ekki sett honum nein tímamörk þar sem það er ekki hægt að flýta bataferlinu."

„Ég ber mikla virðingu fyrir hans baráttu og vilja til að ná fyrri styrk og mun ég styðja hann í þessari baráttu - ekki beita hann þrýstingi."

Orðrómur hefur verið á kreiki að Ashton hafi íhugað að hætta en hann er ekki nema 25 ára gamall.

„Við höfum ekki rætt neitt um það og hann veit að ég treysti honum. Við munum halda áfram að reyna að hjálpa honum."

Ashton meiddist í leik með enska landsliðinu á sínum tíma en vann sér sæti í liðinu á ný eftir að hann skoraði ellefu mörk með West Ham árið 2008. En í september í fyrra tóku meiðslin sig upp og hefur hann ekki geta spilað síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×