Enski boltinn

Verður Ribery fenginn til að fylla skarð Ronaldo?

Ómar Þorgeirsson skrifar
Franck Ribery.
Franck Ribery. Nordic photos/Getty images

Breskir fjölmiðlar eru nú uppfullir af sögusögnum um hvað næsta skref Englandsmeistara Manchester United verði eftir að félagið samþykkti 80 milljón punda kauptilboð í Cristiano Ronaldo. Eitt nafn fylgir jafnan fljótlega á eftir í umræðunni en það er Franck Ribery hjá Bayern München.

Flestir fjölmiðlar á Englandi virðast sjá franska landsliðsmanninn sem líklegan arftaka Ronaldo á Old Trafford en Ribery hefur verið að leika frábærlega í þýsku deildinni og Meistaradeild Evrópu síðan Bæjarar fengu hann frá Marseille sumarið 2007 á 25 milljónir evra.

Ribery er hins vegar metinn á um helmingi hærra verð núna eða nálægt 40 milljónum punda og óvíst er hvort að United sé tilbúið að ganga að því.

Glazer fjölskyldan sem á enska félagið hefur hins vegar jafnan stutt vel við bakið á knattspyrnustjóranum Sir Alex Ferguson og áður en kauptilboðið í Ronaldo barst var talið að Skotinn myndi fá um 25 milljónir punda til þess að kaupa nýja leikmenn í sumar. Hversu mikinn hluta af 80 milljónunum mun Ferguson svo fá til leikmannakaupa, er alls óvíst.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×