Innlent

Flugumferð margfaldast við Ísland í dag

Flug um íslenska flugstjórnarsvæðið mun margfaldast í dag vegna bilana í tækjabúnaði í Shanwick í Bretlandi sem sér um stjórnun úthafsflugumferðar á breska flugstjórnarsvæðinu.

Shanwick flugstjórnarmiðstöðin er í Prestwick í Skotlandi en flugstjórnarkerfið þar hrundi klukkan tuttugu mínútur yfir sjö í morgun. Á þessum tíma dags liggur flugumferðin frá Evrópu til norður og suður Ameríku, og var henni þegar beint inn á íslenska flugstjórnarsvæðið og úthafssvæði Portúgals, sem er í Santa María á Asoreyjum.

Kalla þurfti út auka mannskap í Flugstjórnarmiðstöðina á Reykjavíkurflugvelli vegna þessa. Áætlanir dagsins gerðu ráð fyrir að um eitt hundrað flugvélar færu vestur um haf í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið nú fyrripart dags, en samkvæmt upplýsingum frá Flugstjórnarmiðstöðinni er líklegt að umferðin vestur hafi þrefaldist á íslenska svæðinu í dag.

Megnið af vesturumferðinni sem átti að fara um Shanwick fer um íslenska svæðið en flugvélar á leið frá Evrópu til syðri hluta Bandaríkjanna, Mið-Ameríku og Suður-Ameríku fara margar hverjar í gegnum flugstjórnina á Santa María.

Flugstjórnarkerfið í Shanwick er nú komið í lag og því má reikna með að flugumferðin frá Ameríku til Evrópu dreifist með eðlilegum hætti seinnipartinn í dag.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.