Innlent

Birgitta: Blaut tuska framan í almenning

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir gerir athugasemd við aðkomu Björgólfs Thors að uppbyggingu gagnavers. Mynd/ Anton.
Birgitta Jónsdóttir gerir athugasemd við aðkomu Björgólfs Thors að uppbyggingu gagnavers. Mynd/ Anton.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segist hafa fengið jákvæð viðbrögð við máli sínu á Alþingi í morgun. Þar lét þung orð falla þegar að hún spurði iðnaðarráðherra hvort hún teldi að Björgólfur Thor Björgólfsson ætti ekki að skila þýfinu sem hvarf af Icesave reikningunum sem hann bæri beina ábyrgð á. Birgitta var að spyrja ráðherra um lagafrumvarp um gagnaver á Reykjanesi sem lagt var fram á þingi í fyrradag. Björgólfur er hluthafi í Verne Holding sem hyggst reisa gagnaverið.

„Þetta er náttúrlega líka blaut tuska framan í almenning og okkur sem erum að berjast gegn því að Icesave sé samþykkt í þeirri mynd sem það er. Við vitum hver er ábyrgur fyrir því að hafa sett þessa Icesave reikninga af stað. Við vitum hver ber ábyrgð á hruninu. Þó að réttarkerfið sé ekki búið að ná í skottið á þeim þá er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta. Það er bara það sem ég fann hjá sjálfri mér, ég átti bara ekki til orð þegar að ég sá þetta," segir Birgitta.

Birgitta segir að það þurfi að skoða mjög vel eignarhald á öllum fyrirtækjum. Mikill áhugi sé fyrir fjárfestingum í gagnaverum og það sé ástæðulaust að taka fyrsta tilboði um fjárfestingar. „Ef það er eitthvað sem við eigum að læra af fortíðinni þá er það að við eigum ekki að afhenda svona tilboð á slilfurfati nema það liggi ljóst fyrir hvert eignarhaldið er," segir Birgitta. Hún segir að þarna sé um að ræða miklar skattaívilnanir og orkan sé ekki takmarkalaus á Íslandi. Þá sé það mjög umdeilt á Íslandi hvernig eigi að nýta orkuna. Sjálf segist Birgitta þó styðja gagnaver, sérstaklega ef þau skapi mörg störf.

Loks segir Birgitta að sér finnist vanta siðferðireglur í viðskiptaheiminn. Slíkar reglur þurfi að setja því margir telji að það hafi orðið siðferðirof.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.