Enski boltinn

Gerrard meiddur og Aquilani veikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard, leikmaður Liverpool.
Steven Gerrard, leikmaður Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, hefur staðfest að þeir Steven Gerrard og Glen Johnson eru báðir meiddir og missa af leik liðsins gegn Fulham á morgun. Þá er Alberto Aquilani veikur.

Gerrard er enn að jafna sig á meiðslum sem hann hlaut í landsleik í byrjun mánaðarins og eru sögusagnir um að hann þurfi að fara í aðgerð.

„Gerrard á enn í vandræðum vegna nárameiðsla sinna og getur því ekki spilað um helgina," sagði Benitez. „Hann er í sjúkraþjálfun og við munum meta stöðuna aftur í næstu viku."

Benitez sagði að Johnson hefði meiðst lítið á kálfa og verði næstu sjö dagana að jafna sig.

Ítalinn Alberto Aquilani hefur enn ekki náð að spila með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðan hann kom frá Roma í sumar vegna erfiðra ökklameiðsla.

„Hann er í fínni æfingu og ökklinn lítur vel út. Vandamálið nú er að hann virðist vera orðinn veikur og verður því væntanlega ekki með á morgun," sagði Benitez.

Góðu fréttirnar fyrir stuðningsmenn Liverpool eru hins vegar þær að allt útlit er fyrir að Fernando Torres verði á sínum stað í byrjunarliðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×