Innlent

Jóhanna vill aflétta trúnaði af skýrslu um bankahrunið

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Forsætisráðherra vill láta kanna hvort ekki verði hægt að aflétta trúnaði af gögnum Rannsóknarnefndar Alþingis um atburðarrásina í kringum bankahrunið í október. Utanríkismálanefnd Alþingis fjallaði um gögnin í morgun en Siv Friðleifsdóttir segist vera slegin yfir þeim upplýsingum sem þar koma fram.

Mikil leynd hvílir yfir trúnaðargögnum Rannsóknarnefndar Alþingis sem kynnt voru á fundi utanríkismálanefndar í morgun.

Nefndin fékk aðgang að gögnunum vegna fyrirspurnar Sivjar Friðleifsdóttur í tengslum við Icesave deilu Íslendinga og Breta.

Í gögnunum er einnig fjallað um atburðarrásina í kringum bankahrunið í október.

„Við erum bundin trúnaði um upplýsingarnar sem komu fram en ég vil þó segja að atburðarrásin er mun ævintýralegri heldur en ég gat nokkru sinni ímyndað mér. Þannig að maður er hálf sleginn yfir upplýsingunum sem þó komu fram bæði í gögnunum og svo í tali nefndarmanna," segir Siv.

Siv vill að Jóhann Sigurðardóttir, forsætisráðherra, aflétti trúnaði af gögnunum. Ráðherra segist vera tilbúinn að beita sér í því.

„Meðan gögnin eru hjá rannsóknarnefnd, þau gögn sem við höfum afhent henni, þá erum við bundin trúnaði hvað varðar þessi gögn," segir Jóhanna.

Spurð hvort hún hafi séð gögnin segir Jóhanna. „Ég hef aldrei séð þau. Við munum auðvitað skoða málið í framhaldinu. Ef ég hef einhverja leið til þess að birta þetta þá munum við skoða það með jákvæðum huga."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×