Enski boltinn

Benitez: Leikmenn Liverpool eru reiðir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Liverpool á gríðarlega mikilvægan leik fyrir höndum í kvöld er liðið tekur á móti Birmingham á heimavelli. Það hefur hvorki gengið né rekið hjá liðinu síðustu vikur og leikurinn í kvöld er tækifæri fyrir liðið til þess að komast aftur í gang.

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, segir að leikmenn liðsins séu reiðir yfir því hvernig gengið hafi verið það sem af er vetri. Hann segir að leikmenn muni nota þessa reiði til þess að koma sér aftur á beinu brautina.

„Það vilja allir hér, stuðningsmenn og leikmenn sjá liðið standa sig betur. Ég hef fulla trú á því að við munum koma til. Það myndi gefa okkur mikinn meðbyr að vinna tvo leiki í röð," sagði Benitez.

„Pepe Reina er mjög svekktur með árangurinn í Meistaradeildinni og hefur greint frá því. Hann hefur samt mjög jákvætt viðhorf. Við erum ekki heimskir, við vitum að við getum gert betur. Við höfum æft vel síðan í Lyon og ég hef séð jákvæðar breytingar á stemningunni í hópnum."

Þeir vilja spila, eru tilbúnir að hjálpa liðinu úr þessum ógöngum. Leikmenn eru reiðir og vilja breyta þessu ástandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×