Enski boltinn

Heiðar snýr aftur til Watford á láni

Ómar Þorgeirsson skrifar
Heiðar Helguson.
Heiðar Helguson. Mynd/Vilhelm

Landsliðsframherjinn Heiðar Helguson hefur ákveðið að snúa aftur í raðir Watford á lánssamningi til áramóta frá QPR en bæði félögin leika í ensku b-deildinni.

Heiðar lék með Watford við góðan orðstír á árunum 2000-2005 og veit því að hverju hann gengur.

„Ég er bara mjög ánægður með þetta. Ég þekki auðvitað vel til hjá félaginu þó svo að það séu nú ekki margir eftir sem vorum þarna á sínum tíma með mér. Ég vill annars bara fá að spila og því hentar þessi lánssamningur bara mjög vel. Ég þarf ekki einu sinni að flytja eða neitt og er bara hálftíma lengur að keyra á æfingar," segir Heiðar í samtali við Vísi.

Watford og Middlesbrough voru bæði sögð vera á eftir Heiðari en eins og segir varð Watford fyrir valinu.

„Þetta er bara lánssamningur fram að áramótum og það eru engin ákvæði eða neitt slíkt um framhaldið. Það kemur bara í ljós hvað verður þegar lánssamningurinn er búinn. Ég heyrði heldur ekkert frá Middlesbrough það voru bara einhverjar sögusagnir en það getur svo sem vel verið að ég hafi verið eitt af þeim nöfnum sem þeir höfðu á lista hjá sér. Ég er annars ekkert að spá í það og ætla bara að standa mig vel fyrir Watford," segir Heiðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×