Enski boltinn

City mun andmæla kærunni á hendur Adebayor

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu um helgina.
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að félagið muni andmæla kæru enska knattspyrnusambandsins á hendur Emmanuel Adebayor.

Adebayor fagnaði marki sínu með City gegn Arsenal um síðustu helgi með því að hlaupa völlinn endilangan og fagna fyrir framan stuðningsmenn Arsenal. Leikurinn fór fram á heimavelli City.

Þetta reiddist stuðningsmönnum Arsenal mjög sem og leikmönnum liðsins og stjóranum, Arsene Wenger.

Adebayor fékk í vikunni þriggja leikja bann fyrir að traðka á andliti Robin van Persie, leikmanni Arsenal, í leiknum. Adebayor var einnig kærður fyrir það atvik og andmælti City henni ekki.

„Hann yfir gaf ekki leikvöllinn og fagnaði með því að renna sér á hnjánum. Það er hefðbundin hegðun þegar leikmenn fagna marki," sagði Hughes í samtali við enska fjölmiðla.

Eftir leikinn kom í ljós að starfsmaður á vellinum þurfti að fá aðhlynningu á sjúkrahúsi eftir að stuðningsmenn Arsenal köstuðu aðskotahlutum inn á völlinn þegar Adebayor fagnaði marki sínu.

„Það er mikilvægt að fjarlægja ekki tilfinningar úr knattspyrnunni," bætti Hughes við. „Tilfinningar fylgja knattspyrnunni og er hluti af pakkanum."

City keypti Adebayor frá Arsenal í sumar fyrir 25 milljónir punda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×