Enski boltinn

Arshavin gat ekki notað hægri fótinn alla vikuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Arshavin fagnar hér markinu sínu á móti Liverpool.
Andrei Arshavin fagnar hér markinu sínu á móti Liverpool. Mynd/AFP
Arsenal-maðurinn Andrei Arshavin var enn á ný örlagavaldur Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í gær þegar hann skoraði sigurmark Arsenal í 2-1 sigri. Tapið gerði endanlega út um allar meistaravonir hjá Liverpool en í fyrra skoraði Arshavin einmitt fernu á Anfield.

Það vissu eða sáu fáir að sigurmarkið skoraði þessi snaggaralegi Rússi þrátt fyrir að vera sárþjáður í skotfætinum. Hann tók glæsilega við boltanum utarlega í teignum og skoraði með þrumuskoti upp í bláhornið í stöngina og inn.

„Hann kemur varnarmönnum og markvörðum alltaf á óvart. Hann lék meiddur í þessum leik og gat ekki notað hægri fótinn á æfingum alla vikuna. Þegar tækifærið kom hikaði hann samt ekkert heldur skaut boltanum með hægri fætinum. Ég þurfti seinna að taka hann útaf þar sem að hann varð svo slæmur í fætinum eftir skotið. Þegar hann skoraði þá fann hann samt ekkert til," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×