Enski boltinn

Louis Saha kom Everton 1-0 yfir eftir aðeins 25 sekúndur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis Saha markaskorari Everton fagnar markinu sínu.
Louis Saha markaskorari Everton fagnar markinu sínu. Mynd/AFP

Það var heldur betur rétt ákvörðun hjá David Moyes að setja Louis Saha í byrjunarliðið því Frakkinn þurfti bara 25 sekúndur til þess að koma Everton í 1-0 í bikaúrslitaleiknum á móti Chelsea á Wembley.

Everton byrjaði strax í hörku sókn sem endaði með því að Marouane Fellaini vann skallabolta sem datt fyrir fætur Saha utarlega í teignum og Saha skoraði með glæsilegu skoti.

Það var ljóst á öllu að Louis Saha var búinn að bíða lengi eftir að spila í bikaúrslitaleik en hann hafði misst af fjórum úrslitaleikjum. Árið 1999 var hann ekki valinn þegar hann lék með Newcastle United.

Árin 2005 og 2007 var hann meiddur þegar hann lék með Manchester United og árið 2004 var hann ólöglegur með United eftir að hafa spilað með Fulham í bikarnum fyrr um tímabilið.

Louis Saha setti með þessu met en enginn hefur verið fljótari að skora í sögu úrslitaleikja ensku bikarkeppninnar en þessi leikur er númer 128. Gamla metið var síðan 1895 þegar Bob Chatt kom Aston Villa yfir eftir 30 sekúndur.
























Fleiri fréttir

Sjá meira


×