Enski boltinn

Darren Bent ver ákvörðun sína að leyfa Jones að taka vítið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darren Bent og Kenwyne Jones fagna marki saman í leiknum.
Darren Bent og Kenwyne Jones fagna marki saman í leiknum. Mynd/AFP

Darren Bent, leikmaður Sunderland, hefur komið fram og varið þá ákvörðun sína að leyfa Kenwyne Jones að taka annað víti liðsins í 5-2 sigrinum á Wolves en Steve Bruce, stjóri Sunderland, var allt annað en sáttur með það eftir leikinn enda taldi hann að besta vítaskytta liðsins ætti að taka vítið.

„Mér fannst að Kenwyne væri búinn að spila rosalega vel og að honum vantaði bara að skora mark. Hann sagði mér að honum langaði að taka vítið og þar sem að ég var búinn að skora mark þá leyfði ég honum að taka vítið," sagði Darren Bent.

„Ég er viss um að ef hann hefði ekki fengið að taka vítið þá hefði hann ekki skorað seinna markið sitt heldur. Það mark reyndist síðan vera mjög mikilvægt fyrir okkur," sagði Bent.

„Eftir á að hyggja hefði ég kannski ekki átt að gera þetta því ef að Kenwyne hefði klikkað á vítinu þá hefði allt orðið brjálað. Ég þekki samt Kenwyne og vissi að hann myndi skora," sagði Bent.

„Ég tel að það sé mikilvægt að allir framherjarnir okkar séu að skora. Þetta á ekki bara að snúast í kringum mig heldur eiga Kenwyne og Fraizer Campbell að vera skora líka. Það varð því bara að hafa það þó að ég hafi fengið í staðinn að heyra það frá stjóranum," sagði Darren Bent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×