Enski boltinn

Gerrard: Þurfum fleiri leikmenn á borð við Torres

Ómar Þorgeirsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/NordicphotosGetty

Miðjumaðurinn Steven Gerrard hjá Liverpool segir að félagið þurfi að styrkja leikmannahóp sinn talsvert til þess að geta haft betur gegn Manchester United í baráttunni um enska meistaratitilinn á næstu leiktíð.

„Við þurfum fleiri leikmenn í sama gæðaflokki og Fernando Torres. Við þurfum reyndar líka á því að halda að Torres sé heill heilsu því við söknuðum hans mikið inni á vellinum þegar hann var meiddur á síðustu leiktíð. En við þurfum líka að styrkja leikmannahópinn til þess að fá meiri gæði frá leikmönnunum sem koma af bekknum í hverjum leik. United hafði þennan sprengikraft í leikmannahópnum í heild sinni og mikla breidd og við þurfum líka á því að halda," segir Gerrard.

Liverpool var með í titilbaráttunni af meiri móð á síðustu leiktíð en undanfarin ár en Gerrard á þó erfitt með að sjá tímabilið sem annað en vonbrigði.

„Ég er ekki beint stoltur af tímabilinu hjá okkur. Við unnum engan titil og við þurfum að gera betur á næsta tímabili," segir Gerrard á blaðamannafundi í kvöld fyrir næsta landsleik Englands í undankeppni HM 2010.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×