Enski boltinn

Figueroa verður ekki seldur í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maynor Figueroa í leik með Wigan.
Maynor Figueroa í leik með Wigan. Nordic Photos / Getty Images

Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Wigan, hefur útilokað að bakvörðurinn Maynor Figueroa verði seldur í næsta mánuði.

Figueroa hefur verið orðaður við Sunderland en núverandi stjóri liðsins, Steve Bruce, keypti hann til Wigan á sínum tíma.

„Við viljum ekki missa okkar bestu leikmenn. Maynor hefur verið frábær alla þessa leiktíð og sannur fagmaður þar að auki," sagði Martinez við enska fjölmiðla.

„Framundan hjá honum er úrslitakeppni HM í Suður-Afríku næsta sumar og ég held að það væri ekki skynsamlegt fyrir varnarmann að skipta um félag svo stuttu fyrir HM."

Hann viðurkennir þó að það gæti reynst erfitt fyrir Wigan að halda Figueroa í röðum félagsins að tímabilinu loknu.

„Það getur vel verið að hann fari í sumar en þangað til viljum við njóta hans hæfileika hjá félaginu."

Figueroa skoraði annað mark Wigan í 2-2 jafntefli við Stoke um helgina. Markið var glæsilegt en hann skoraði beint úr aukaspyrnu á eigin vallarhelmingi. Markið má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×