Innlent

Stjórnarmaður KSÍ vill setja siðareglur

Ingibjörg telur að upplýsa hefði átt þegar um málefni fjármálastjóra, en 3,2 milljónir króna voru teknar af korti KSÍ á nektarstað í Sviss. Hún kallar eftir siðareglum. fréttablaðið/vilhelm
Ingibjörg telur að upplýsa hefði átt þegar um málefni fjármálastjóra, en 3,2 milljónir króna voru teknar af korti KSÍ á nektarstað í Sviss. Hún kallar eftir siðareglum. fréttablaðið/vilhelm
Ingibjörg Hinriksdóttir, stjórnarmaður í Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ), telur að ekki hafi verið tekið rétt á málum fjármálastjóra sambandsins, en milljónir voru teknar af korti sambandsins sem hann var með á nektarstað í Sviss. Ingibjörg telur að málið hefði átt að vera opinbert frá fyrstu stundu.

„Mér finnst þetta mál ömurlegt í heild sinni og mér var verulega brugðið þegar ég heyrði fyrst af því í fjölmiðlum á fimmtudag. Ég þekkti Pálma [fjármálastjórann] ekki af öðru en að vera æruverðugur og heiðarlegur maður. Sú leið sem var farin var ekki sú sem ég hefði kosið fyrst. Ég hefði kosið að stjórnin hefði verið kölluð saman og upplýst og málið rætt.“

Ingibjörg segir að málið sé KSÍ ekki til sóma og það skaði knattspyrnu á Íslandi. Setja verði siðareglur fyrir sambandið. „Það hefði mátt vera ákvörðun fyrrum framkvæmdastjóra og núverandi formanns að setja slíkar siðareglur. Það tækifæri nýtti hann því miður ekki. Ég held að það sé rangt að fara í felur með svona mál. Það er heiðarlegast að hafa allt uppi á borðinu.“

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir að stjórnin muni fara yfir erindi menntamálaráðherra, en líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær, hefur Katrín Jakobsdóttir krafist skýringa frá sambandinu. Málið verði rætt í stjórn sambandsins 19. nóvember. Hann hafi ekki enn kynnt sér dóminn sem féll í Sviss en hann muni gera það.

Ingibjörg hafði ekki heyrt af stjórnarfundinum þegar Fréttablaðið náði tali af henni. „Mér finnst málið nú komið í ógöngur og veit ekki hvaða skref eru best í því. Við í stjórninni þurfum að taka þau skref í sameiningu.“

kolbeinn@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×