Enski boltinn

Gerrard framlengir áður en hann fer í sumarfrí

NordicPhotos/GettyImages

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segist stefna á að skrifa undir nýjan samning við Liverpool áður en hann heldur í sumarfrí að leiktíð lokinni á Englandi.

Gerrard hefur gefið munnlegt samþykki fyrir nýjum samningi en hefur enn ekki skrifað nafnið sitt á plaggið. Hinn 28 ára gamli miðjumaður segir að aðeins eigi eftir að fínpússa nokkur atriði áður en gengið verður frá málinu.

"Ég er við það að skrifa undir. Það eru nokkur atriði sem þarf að skoða betur en ég vonast til að skrifa undir áður en ég fer í sumarfrí. Þetta er stór samningur fyrir mig og hugsanlega sá síðasti sem ég undirrita. Ég verð 33 ára þegar honum lýkur og mér finnst ég vera að spila eins vel og ég hef gert á ferlinum í vetur," sagði Gerrard.

"Ég vil vinna eins marga titla og ég get á þessum tíma. Ég á ekki langt eftir, svo ég er farinn að verða gráðugur í titlana," sagði Gerrard, sem á að baki yfir 330 leiki í úrvalsdeildinni og 70 mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×