Innlent

Ákveða sjálfir hvort þeir upplýsa um hagsmunatengsl sín

Þingmenn geta ákveðið það sjálfir hvort þeir gefi upplýsingar um hagsmuni sína og eignir samkvæmt drögum að reglum sem þingflokkar á Alþingi hafa náð sátt um. Reglurnar taka hvorki til skulda eða maka þingmanna.

Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hefur óskað eftir upplýsingum um einstaka þingmenn og fyrrverandi þingmenn frá skrifstofu Alþingis. Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar, segir að ábending hafi borist innan um bankakerfinu um að einstakir stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn raunar einnig, kynnu að hafa fengið óeðlilega fyrirgreiðslu í bankakerfinu. Fjármál stjórnmálaflokka, einstakra stjórnmálamanna og hagsmunatengsl hafa verið mikið til umræðu og lengi.

Stjórnmálaflokkarnir sem sitja á Alþingi munu hafa náð samkomulagi um reglur um að þingmenn birti upplýsingar um hagsmunatengsl sín. Þær eru unnar í forsætisnefnd þingsins. Til stendur að kynna þær á næstu dögum, en verið er að fínpússa orðalag segja heimildarmenn.

Þingmenn eiga samkvæmt reglunum að gera grein fyrir eignum sínum og tengslum við fyrirtæki og stofnanir, ef þeir svo sjálfir kjósa. Það þýðir að reglurnar verða ekki bindandi, heldur valkvæmar eins og heimildarmenn fréttastofu orða það. Þá taka reglurnar ekki til maka og heldur ekki skulda; skuldirnar voru raunar ræddar í forsætisnefnd Alþingis. Þá verða þær hvorki í formi lagasetningar né þingsályktunar, heldur verður þetta innanhússregluverk.

Framsóknarþingmann og þingmenn Vinstri grænna hafa þegar birt á vefsíðum flokka sinna, ýmsar upplýsingar um fjárhag og hagsmunatengsl þingmanna. Vinstri grænir eru nákvæmari en framsóknarmenn, en hvorugir fjalla um skuldirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×