Innlent

UVG: Vilja hætta heræfingum og loftrýmiseftirliti

Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður UVG.
Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður UVG.

Ungliðahreyfing Vinstri grænna fagnar því að til standi að leggja niður Varnarmálastofnun í núverandi mynd. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en um leið er harmað að „tilgangslausar og kostnaðarsamar heræfingar hafi ekki verið lagðar af í leiðinni."

Þá er bent á að hægt væri að spara tugi milljóna með því að segja Ísland úr NATO. „Ung vinstri græn leggja til að heræfingar, loftrýmiseftirlit og önnur hernaðarleg starfsemi verði lögð niður og að peningarnir sem sparast verði nýttir í velferðarkerfinu. Svo dæmi sé tekið væri hægt að veita þeim inní Lánasjóð íslenskra námsmanna sem hefur þurft að fara í gegnum sársaukafullar sparnaðaraðgerðir að undanförnu."

Að lokum hvetja Ung vinstri græn stjórnvöld til að forgangsraða rétt á erfiðum tímum. Það sé skref í rétta átt að leggja niður Varnarmálastofnun, en betur megi ef duga skuli. „Það eru ekki aðeins hagsmunir ungs fólks, heldur allra Íslendinga að íslenska ríkið fjárfesti í menntun, mannviti og öflugu velferðakerfi, en hendi ekki peningum í tilgangslaust hernaðarbrask."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×