Tveir karlar á þrítugsaldri, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöld í tengslum við rannsókn á kannabisræktun á Kjalarnesi, eru nú lausir úr haldi lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en mennirnir voru yfirheyrðir í dag.
Þá segir ennfremur að í umræddu máli hafi lögreglan fundið 621 kannabisplöntu í iðnaðarhúsnæði á Melunum ofan Vesturlandsvegar, norðan Leiruvegar og Varmadalsvegar.
Plönturnar voru á ýmsum stigum ræktunar en á sama stað var einnig lagt hald á tæplega 5 kg af marijúana og svipað magn af kannabislaufum.
Af aðstæðum innandyra mátti ráða að um afar umfangsmikla kannabisræktun var að ræða og hefur lögreglan ekki áður séð neitt í líkingu við þetta.