Enski boltinn

Benitez vill klára samningamálin innan tveggja vikna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Benitez vill skýr svör frá eigendum Liverpool á næstu tveim vikum.
Benitez vill skýr svör frá eigendum Liverpool á næstu tveim vikum. Nordic Photos/Getty Images

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, hefur komið þeim skilaboðum á framfæri að hann vilji gera út um samningamál sín við félagið á næstu tveim vikum. Hann vísar því jafnframt á bug að hann sé á leið til Real Madrid.

Núverandi samningur Benitez við Liverpool rennur út í enda næsta tímabils og staða hans hefur verið í lausu lofti í marga mánuði.

Samningaviðræðurnar við hina bandarísku eigendur félagsins hafa gengið afar hægt og þess vegna hafa sögusagnir um Real Madrid farið af stað. Benitez segist þó vera sáttur í Bítlaborginni.

„Ég mun fara yfir stöðu mína og framtíðina með eigendunum í næstu viku. Ég verð að klára þetta mál á næstu tveimur vikum. Fólk sem sér mig fyrir sér hjá Real Madrid hefur einfaldlega rangt fyrir sér.

Ég er með samning við Liverpool, ég skulda Liverpool og er aðeins að hugsa um Liverpool. Ég er hamingjusamur hérna og er með verkefni í fullum gangi. Ég er búinn að vera hérna í fimm ár og framhaldið yrði auðveldara," sagði Benitez.

„Ég vil miðlungs- eða mjög langan samning. Ég vil ekki vinna án þess að vita hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þar sem hver úrslit ráða úrslitum um framtíðina.

Það sem ég er að leita að finnst ekki á Spáni. Þar eru menn ekki í neinum langtímaverkefnum. Ég er frekar ungur þjálfari en get ekki spáð um framtíð mína. Real Madrid er frábær klúbbur en ég er líka hjá yndislegum klúbbi sem hvetur mig til dáða. Ég vil starfa þar sem ég get unnið að langtímaverkefni," sagði Spánverjinn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×