Umboðsmaður Marlon Harewood hefur staðfest að leikmaðurinn verður lánaður til enska B-deildarfélagsins Newcastle frá Aston Villa.
Harewood hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Villa og forráðamenn Newcastle vilja styrkja framlínu liðsins eftir að Shola Ameobi meiddist.
Newcastle reyndi að fá Harewood í sumar en meiðsli hans komu í veg fyrir það þá.
Harewood er þó búinn að jafna sig af meiðslunum og vill fá að spila á nýjan leik.
„Ég trúi því að allir aðilar séu nálægt því að ná saman og vonandi getum við gengið frá þessu síðar í vikunni," sagði Phil Sproson, umboðsmaður Harewood.
„Marlon er mjög spenntur fyrir því að fara til Newcastle og spila reglulega á nýjan leik."