Enski boltinn

Giggs: Ég hætti á undan Ferguson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Giggs, leikmaður Manchester United.
Ryan Giggs, leikmaður Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Ryan Giggs á von á því að Alex Ferguson verði enn við stjórnvölinn hjá Manchester United þegar hann leggur sjálfur skóna á hilluna.

Giggs varð 36 ára gamall í síðasta mánuði en stendur til boða að framlengja samning sinn við United til eins árs í viðbót.

„Þetta snýst um hvernig mér líður í lok hvers tímabils," sagði Giggs við enska fjölmiðla. „Ég þarf að spyrja sjálfan mig hvernig mér líður og hvort ég nýt þess enn að spila knattspyrnu og æfa á hverjum degi. En þegar ég hætti hjá United þá er ég alfarið hættur - ég mun ekki spila með öðru félagi."

En Giggs telur að hann muni hætta áður en knattspyrnustjórinn hættir. „Hann er jafn góður og hann hefur alltaf verið og getur haldið áfram lengi enn," sagði Giggs um Ferguson. „Ég get auðveldlega séð fyrir mér að hann verði enn stjóri United eftir fimm ár. Ef hann hefur heilsu til þá verður ástríðan enn til staðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×