Enski boltinn

Robben vorkennir Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robben gekk nýverið í raðir Bayern München frá Real Madrid.
Robben gekk nýverið í raðir Bayern München frá Real Madrid. Nordic Photos / Bongarts

Arjen Robben, leikmaður Bayern München, vorkennir sínu gamla félagi, Chelsea. Það var í gær bannað að kaupa nýja leikmenn til félagsins þar til í janúar 2011.

Chelsea hefur ákveðið að áfrýja ákvörðun Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, og forráðamenn liðsins sögðust í gær ætla að berjast með kjafti og klóm fyrir sínu.

Robben lék með Chelsea frá 2004 til 2007 og á von á því að það gæti reynst erfitt fyrir Chelsea að halda í við hin topplið ensku úrvalsdeildarinnar ef bannið stenst.

„Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir félagið. Chelsea er enn mitt félag í Englandi. Ég naut mín virkilega vel þar og því vorkenni ég því mikið nú."

„Ég gæti trúað því að þetta gæti reynst Chelsea erfitt. Þetta er tveggja ára bann og þeir geta á þeim tíma ekki keypt neina nýja leikmenn. En félagið er þó með frábæran leikmannahóp."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×