Innlent

Lögreglumaður ákærður fyrir líkamsárás - neitar sök

Lögreglumaðurinn Garðar Helgi Magnússon neitaði sök í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en hann hefur verið ákærður fyrir fyrir brot í opinberu starfi og líkamsárás með því að hafa að morgni sunnudagsins 18. janúar 2009 farið offari við framkvæmd lögreglustarfans og ekki gætt lögmætra aðferða.

Í ákæruskjali segir að hann hafi, sem stjórnandi lögregluaðgerðar, fyrirskipað öðrum lögreglumanni að aka með handtekinn mann, fæddum 1987, frá Austurstræti út á Granda í Reykjavík þar sem maðurinn var skilinn eftir.

Þá á lögreglumaður að hafa á leiðinni út á Granda þrýst hné sínu á háls mannsins þar sem hann lá handjárnaður í tökum lögreglu á maganum á gólfi lögreglubifreiðar. Maðurinn hlaut marbletti aftan á hálsinn vegna meintra aðfara lögreglunnar.

Milliþinghald var ákveðið í morgun vegna gagnaöflunar. Það verður 28. október. Í kjölfarið verður aðalmeðferð ákveðin í málinu.

Garðar Helgi starfar enn sem lögreglumaður en Ríkislögreglustjóri skoðar stöðu Garðars í ljósi þess að hann hefur verið ákærður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×