Sunderland vann 5-2 sigur á Wolves í dag en þetta var eini leikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Darren Bent kom Sunderland yfir úr vítaspyrnu strax á áttundu mínútu leiksins og þannig var staðan í hálfleik.
Sunderland fékk aðra vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks. Kenwyne Jones tók hins vegar þá vítaspyrnu og skoraði af öryggi.
John Mensah, varnarmaður Sunderland, varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark aðeins tveimur mínútum síðar. Stuttu síðar fékk Wolves óbeina aukaspyrnu á markteig og náði Kevin Doyle að skora úr henni eftir að fyrsta skot Wolves var varið.
En þá tók Sunderland aftur völdin í leiknum. Kenwyne Jones kom liðinu aftur yfir á 70. mínútu og Michael Turner skoraði fjórða markið með skalla þremur mínútum síðar.
Darren Bent átti svo skot í Michael Mancienne í blálok leiksins og hafnaði boltinn í netinu. Markið var skráð sem sjálfsmark á Mancienne.