Innlent

Réttarkerfið sniðið fyrir þá ríku

Heimir Már Pétursson skrifar
Eva Joly segir réttarkerfi Vesturlanda sniðið að því að dæma fólk í lægri lögum samfélagsins. Reynslan sýni að erfiðara sé að sakfella þá ríku og valdamiklu sem jafnvel sleppi undan refsingum eftir að dómar hafa verið kveðnir upp.

Eva Joly segir að níu ár hafi liðið frá upphafi Elf-rannsóknarinnar í Frakklandi þar til einstaklingar voru leiddir fyrir dóm. Mörg ár geti því liðið þar til dæmt verði í mögulegum undanskotsmálum og ólöglegum viðskiptaháttum í tengslum við bankahrunið hér.

"Það sem einkennir efnahagsglæpi og þá sem fremja efnahagsbrot er að þeir eru mjög sjaldan dregnir fyrri dóm, mjög sjaldan dæmdir og þegar þeir eru dæmdir þurfa þeir mjög sjaldan að sitja af sér dóma," segir Eva.

Það sé engu líkara en ákveðin hluti samfélagsins sé hafinn yfir lögin. Eva vitnar í franska félagsfræðingin Braudel sem lýsi samfélaginu eins og þriggja hæða húsi. Á neðstu hæðinni sé fólk sem steli sér til matar og framfærslu og borgi enga skatta. Millistéttin sé síðan á annarri hæðinni, fylgi almennt lögum og greiði skatta.

"Á þriðju hæðinni er svo elítan, sem ekki fer að lögum og borgar heldur ekki skatta. Þetta gat einu sinni gengið upp þegar hóparnir á fyrstu og þriðju hæðinni voru fámennir. En nú er það að gerast í heiminum að þeir sem tilheyra annarri hæðinni og hafa stutt samfélagið er að dragast saman og þetta getur ekki gengið lengur," segir Eva.

Eva segir að í lýðræðisþjóðfélagi eigi þjóðfélagið að þola það að áhrifaríkir menn séu dregnir fyrir rétt. En sjálf þurfti hún á lífvörðum að halda um tíma á meðan á Elf-rannsókninni stóð í Frakklandi.

"Almenna reglan er sú að þegar valdamikið og ríkt fólk telur sér ógnað, grípur það of til ráða sem ekki er gert ráð fyrir á lagabókum. Til dæmis er oft gripið til þess að ausa þá auri sem standa að rannsóknum mála. Þetta kom fyrir mig," segir Eva. Menn hafi farið að grafa upp hluti í fortíð hennar til að finna á henni veika bletti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×