Innlent

Vilhjálmur verður áfram í borgarstjórn

Vilhjálmur ku hafa rætt við Davíð Oddsson um stöðu sína.
Vilhjálmur ku hafa rætt við Davíð Oddsson um stöðu sína.

Nær útilokað er talið að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segi af sér, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Líkleg niðurstaða er að hann sitji áfram sem borgarfulltrúi en borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins finni sér annað borgarstjóraefni.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa ekki fundað síðan Vilhjálmur kom fram í Kastljósi á fimmtudaginn. Þeir hafa hins vegar rætt mikið saman í síma og hefur Geir H. Haarde, formaður flokksins, átt samtöl við Vilhjálm um stöðu mála. Vilhjálmur hefur enn fremur ráðfært sig við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins.

Heimildir blaðsins herma að Vilhjálmur muni ekki taka neina ákvörðun varðandi sín mál strax. Forystumenn í flokknum hafi ráðlagt honum að taka ekki ákvörðun fyrr en orrahríðin vegna REI-málsins sé gengin yfir, þar sem almenningsálitið breytist hratt. Enn fremur þoli borgarstjórnarflokkurinn ekki átök um næsta borgarstjóraefni undir núverandi kringumstæðum.

Hugsanlegt er að Vilhjálmur taki ekki ákvörðun fyrr en eftir nokkrar vikur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funda í Ráðhúsinu í dag. Sá fundur var löngu ákveðinn og þó að mál Vilhjálms sé ekki formlega á dagskrá er ljóst að það verður rætt. Líklegt er að Vilhjálmur tjái sig eftir fundinn. Fréttablaðið hefur ekki náð í Vilhjálm síðan á fimmtudaginn.- shá / - th




Fleiri fréttir

Sjá meira


×