Innlent

Eldur kom upp í Hvalasafni Húsavíkur

MYND/Guðbergur R. Ægisson

Slökkvilið Húsavíkur var kallað út laust fyrir klukkan tvö í dag vegna elds sem komið hafði upp í samkomusal í Hvalasafni Húsavíkur.

Að sögn Jóns Ásbergs Salómonssonar slökkviliðsstjóra var allt tiltækt lið kallað út, hátt í 15 manns, enda um stórt hús að ræða. Þegar slökkvilið kom á vettvang hafði starfsmanni tekist að slökkva eldinn með handslökkvitæki.

Eldurinn mun hafa komið upp í rafmagnsleiðslum og skemmdust þær nokkuð og sömuleiðis steinull sitt hvorum megin leiðslanna.

Hvalasafnið er fyrst og fremst opið yfir sumartímann en samkomusalurinn þar sem eldurinn kom upp hefur verið nýttur til briddsiðkunar og innigolfs í vetur. Slökkviliðsstjórinn á von á því að menn geti áfram tekið í spil og spilað golf þar sem skemmdir í brunanum urðu litlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×