Innlent

Nauðsynlegt að koma á fót afeitrunarstöð á Litla Hrauni

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir að nauðsynlegt sé að koma á fót afeitrunarstöð eða sjúkrarúmi fyrir fanga. Landlæknisembættið hyggst rannsaka dauða fanga sem lést vegna meþadoneitrunar á Litla Hrauni síðastliðið haust.

Heilbrigðisstofnun Suðurland fer með heilbrigðisþjónustu á Litla Hrauni og mun stofnunin senda landlæknisembættinu skýrslu vegna málsins á næstu dögum. Matthías segist ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu þar sem embættið fer með rannsókn málsins en tók þó fram að meþadon sé sjaldan notað sem verkjalyf.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi sagði í samtali við fréttastofu í dag að meþadon sé afar vandmeðfarið. Á Vogi sé lyfið sjaldan notað og þá aðeins undir mjög ströngu eftirliti þar sem hætta er á að það valdi öndunarlömun. Lífsmörk fólks séu því stöðugt könnuð.

Maðurinn sem lést á Litla Hrauni í september fannst látinn í klefanum þegar hann var opnaður að morgni.

Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins. Hjá henni fengust þær upplýsingar að kallað hefur verið eftir upplýsingum frá sérfræðingum um notkun meþadons. Framhald rannsóknarinnar verði ákveðið þegar þær hafa borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×